Þjónusta
Upplýsingar um hópastarfið
Öflugt og fjölbreytt hópastarf hefur verið starfrækt hjá Sálarannsóknarfélagi Íslands til fjölda ára, þar sem næmni og færni þátttakenda er styrkt með hugleiðslum og æfingum og þeir aðstoðaðir við að þróa hæfileika sína áfram. Í starfinu er leitast við að veita leiðsögn og fræðslu um andlega iðkun með áherslu á hugleiðslur, heilun og miðlun, sem og því að tengjast leiðbeinendum hvers og eins að handan. Hópastarfið hentar öllum, bæði nýnemum sem og lengra komnum og ekki er þörf á að hafa einhverjar sérgáfur til þess að taka þátt i því.
Öll erum við andleg og það styrkist sem rækt er lögð við. Í einhverjum framhaldshópunum er þó áherslan aðallega á að þjálfa miðlun og transmiðlun og þarf fólk sem skráir sig í þá hópa að hafa einhvern grunn til að byggja á. Hópastarfið er í formi námskeiða og eru nýir þátttakendur teknir inn á haustin og svo aftur um áramót.
Þróunarhringur
Í þróunarhringjum er aðaláherslan lögð á hugleiðslu og sjálfstyrkingu. Með hugleiðslu náum við betra jafnvægi á huga og líkama og tengjumst innri kjarna með ljósi kærleikans og guðlegri orku. Hugleiðslan opnar fyrir næmnina. Við skynjum betur eigin orku, orku annarra, lærum að tengjast leiðbeinendum okkar, verndarenglum og hinum andlega heimi.
Fyrirbænir og bænahringur
Dóra Kristín leiðir bæna og hugleiðsluhring á mánudagskvöldum. Verðið er 2.ooo krónur og er borgað fyrir hvert skipti, frjáls mæting.
Bæna og hugleiðsluhringurinn er á mánudagskvöldum kl. 20:00 og eru allir velkomnir.
Við erum með bænabók. Hægt er að koma til okkar og skrifa í hana en einnig er hægt að biðja um fyrirbænir í síma 551-8130 eða á srfi@srfi.is
Hugleiðsla
Með hugleiðslu náum við að kyrra hugann þannig að alheimsorkan eða Guðsorkan (hvað sem við kjósum að nefna hana) á greiðari aðgang að okkur. Hugleiðslur hjálpa okkur við að tengjast okkar æðra sjálfi, að finna þennan neista guðlegrar orku sem í okkur býr. Þennan „ég er“ kjarna. Við lærum að þekkja okkar eigin orku og einnig kynnumst við leiðbeinendum okkar og verndarenglum sem svo gjarnan vilja aðstoða okkur á allan mögulegan hátt, ef við leyfum þeim það. Við leitumst við að finna jafnvægið á milli þess að dvelja í líkama en vera jafnframt andlegar verur, finna tengsl okkar bæði við jörð og alheim.
Næmni og heilun
Prófum hlutskyggni og þjálfum okkur í að sjá ljósið í kringum hvert annað. Lærum að tengja okkur upp í sálarkjarnann okkar. Við búum öll yfir þeim hæfileikum að líkna og heila. Huglækningar hafa allt tíð fylgt manninum. Við notum þær oft ómeðvitað. En hversu öflugri eru þær ekki þegar við heilum meðvitað? Við prófum okkur áfram með kærleikann að leiðarljósi og leyfum birtunni að lýsa okkur og samferðafólki okkar.
Fræðsluefni
Í Sálarrannsóknarfélagi Íslands er að finna fjölmargar bækur um andleg málefni sem félagsmenn geta komið og sest inn í salinn okkar og lesið. Bókakosturinn inniheldur gamlar og nýjar bækur. Má þar til dæmis finna gömul eintök af tímariti Sálarrannsóknarfélags Íslands, Morgunn. Tímaritið var gefið út á árunum 1920-1998.
Með því að smella hér má nálgast tímaritið Morgunn
á tölvutæku formi inni á timarit.is
Miðlun
Ef þú hefur verið að sinna andlegum málum og vilt auka færni og þekkingu er mikilvægt að þér líði vel í orkunni sem þú villt vinna í. Þú finnur öryggið í orkunni. Það kemur okkur lengra og við fáum meiri upplýsingar. Hvað sem þig langar að gera með orkunni þarftu að kuna blandast henni og betri blöndun með bættu flæði eykur opnun og veitir meira öryggi. Þjálfari aðstoðar þig og sama hvar í ferlinu þú ert og þú færð stuðning viði að halda áfram eftir þinni þróunarbraut.
Einkatímar
Hægt er að fá einkatíma hjá miðlum, hægt er að lesa um miðlana okkar á www.srfi.is/midlar/ og bóka tíma á bókunarsíðunni okkar www.noona.is/saloisland
Tarot
Margar gerðir eru til af Tarot spilum, en spilað hefurverið á þau í Evrópu frá því um miðja fjórtándu öld. Á 18. öld var farið að nota tarot spil við spádóma og margir stokkar spáspila hafa síðan þá verið þróaðir. Eins og í venjulegum spilastokk eru fjórir “litir” (e. Clubs, Coins, Swords and Cups), með 14 spilum í hverjum lit (e. minor Arcana) og 22 háspilum (e. major Arcana). Nokkur blæbrigðamunur er meðal annars eftir upprunalandi, en dæmi um vinsælan spilastokk er “The Rider Tarot Deck”. Hjá Sálarrannsóknarfélaginu er reglulega er boðið upp á námskeið í notkun tarot spila.
Sjálfstyrking
Öll styrking kemur innan frá og öll kyrrð og allt jafnvægi einnig. Það er allt undir einstaklingnum komið hver hans sjálfsvinna er. En þegar við finnum tengslin við hinn andlega heim þá fer okkur að skiljast svo margt og þá þyrstir okkur eftir að vita svo margt fleira. Við fáum ekki öll svörin og andleg leit er ekki eitthvað sem tekur enda. En kyrrðin ein og það að finna tengslin við guðdómleg öfl eru vinnulaun okkar og fyrir þau þökkum við.