Öflugt og fjölbreytt hópastarf hefur verið starfrækt hjá Sálarannsóknarfélagi Íslands til fjölda ára, þar sem næmni og færni þátttakenda er styrkt með hugleiðslum og æfingum og þeir aðstoðaðir við að þróa hæfileika sína áfram. Í starfinu er leitast við að veita leiðsögn og fræðslu um andlega iðkun með áherslu á hugleiðslur, heilun og miðlun, sem og því að tengjast leiðbeinendum hvers og eins að handan. Hópastarfið hentar öllum, bæði nýnemum sem og lengra komnum og ekki er þörf á að hafa einhverjar sérgáfur til þess að taka þátt i því.
Öll erum við andleg og það styrkist sem rækt er lögð við. Í einhverjum framhaldshópunum er þó áherslan aðallega á að þjálfa miðlun og transmiðlun og þarf fólk sem skráir sig í þá hópa að hafa einhvern grunn til að byggja á. Hópastarfið er í formi námskeiða og eru nýir þátttakendur teknir inn á haustin og svo aftur um áramót.