Bryndís Emilsdóttir

Bryndís Emilsdóttir hefur allt frá barnæsku verið næm og haft mikinn áhuga á andlegum málum. Hún lærði hjá Friðbjörgu Óskarsdóttur í Kærleikssetrinu en hefur einnig sótt námskeið í miðlun, transmiðlun og heilun hjá hinum ýmsu miðlum, bæði íslenskum sem og erlendum, t.d. Tím Abbott, Isabella Duchene og Steven Upton. Fyrrilífsdáleiðsluna sem hún nú býður uppá lærði hún hjá Vigdísi Steinþórsdóttur.

Bryndís var í stjórn Sálarrannsóknarfélags Íslands til margra ára og forseti félagsins 2015-2017.

Bryndís hefur boðið upp á einkatíma bæði í transheilun og miðlun, en fræðslan hefur samt alltaf verið henni hjartfólgnust og hefur hún leitt þróunarhópa frá árinu 2008 – 2021, fyrst í Kærleikssetrinu en síðan hjá Sálarrannsóknarfélagi Íslands þar sem hún aðstoðaði fólk við að stíga sín fyrstu skref í andlegri vinnu en vann einnig með framhaldshópa með aðaláherslu á miðlun og heilun.

Fyrrilífsdáleiðsla og dáleiðsla eru ekki ólíkar hugleiðslu. Farið er með góðri slökun inn í dulvitundina og eitt eða fleiri fyrri líf skoðuð með það að markmiði að bæta líðanina í dag. Hægt er að vinna með hin ýmsu vandamál á þennan hátt og góð og djúpstæð heilun getur fengist við það að sleppa tökunum á einhverju gömlu sem gagnast ekki lengur og gæti verið að valda vanlíðan í lífinu í dag. En ekki allar eldri upplifanir eru neikvæðar, stundum koma þær til manns til að minna á þann styrk sem býr innra og gleði sem hægt er að taka með sér til að lýsa upp lífið í dag. Nú eða bara til að gefa okkur skilning á því af hverju við erum eins og við erum. Því með skilninginn að vopni getum við fyrirgefið okkur sjálfum eigin galla og metið kosti okkar. Margir eru í sjálfsleit nú á tímum og dáleiðsla/fyrrilífs dáleiðsla hjálpar þar mikið. Bryndís mun leiða viðkomandi áfram í þessu ferli að losa og leysa upp hið liðna en jafnframt hjálpa til við að styrkja og bæta hið jákvæða með kærleiksljósi og heilunarorku.

Gott væri gott ef viðkomandi hefði aðeins íhugað hvað hann myndi vilja vinna með áður en mætt er í tímann. Það gætu verið t.d. tilfinningar, samskipti, líkaminn nú eða bara það sem gagnaðist best í dag. Viðkomandi mun vita af sér allan tímann og geta svarað spurningum. Engin hætta er á að eitthvað sé sagt eða gert sem viðkomandi ekki vill sjálfur.

Tímabókanir á noona: https://noona.is/saloisland/wjASRvrFPJZyXAqnC/ajVZwCfAqvfA1SY06hgYQzfV/timeslots eða í síma 551-8130.

Skrifstofan er opin mánudaga-fimmtudaga frá 13:00-16:00.