Upplýsingar um hópastarfið

Öflugt og fjölbreytt hópastarf hefur verið starfrækt hjá Sálarannsóknarfélagi Íslands til fjölda ára, þar sem næmni og færni þátttakenda er styrkt með hugleiðslum og æfingum og þeir aðstoðaðir við að þróa hæfileika sína áfram. Í starfinu er leitast við að veita leiðsögn og fræðslu um andlega iðkun með áherslu á hugleiðslur, heilun og miðlun, sem og því að tengjast leiðbeinendum hvers og eins að handan. Hópastarfið hentar öllum, bæði nýnemum sem og lengra komnum og ekki er þörf á að hafa einhverjar sérgáfur til þess að taka þátt i því.

 

Öll erum við andleg og það styrkist sem lagt er rækt við. Í einhverjum framhaldshópunum er þó áherslan aðallega á að þjálfa miðlun og transmiðlun og þarf fólk sem skráir sig í þá hópa að hafa einhvern grunn til að byggja á. Hópastarfið er í formi námskeiða og eru nýir þátttakendur teknir inn á haustin og svo aftur um áramót.

 

Umsjónarmenn og leiðbeinendur eru Friðbjörg Óskarsdóttir og Unnur Teits. Bæna-og hugleiðsluhringur er starfræktur hjá SRFÍ og er mæting þar frjáls. Greitt er fyrir í hvert skipti. Dóra Kristín Halldórsdóttir leiðbeinir og hefur umsjón með þeim hring.

Hver er ég? Þori ég að vera ég? Hver svarar?

Á námskeiðinu mun Davíð leggja áherslu á hvernig við förum að því að kyrra hugann, meðal annars með því að kenna einfaldar hugleiðsluæfingar.

Með því að kyrra hugann og ná góðri slökun komumst við nær sjálfinu og getum virkjað þá góðu eiginlega sem innra með okkur búa. Við verðum næmari og getum virkjað næmni okkar á jákvæðan hátt.

Námskeiðið er jafnt fyrir byrjendur sem lengra komna.

Mánudagar kl. 20:00 – 21:30.
23. september – 2. desember, 2019
36.000 kr.

Bæna og hugleiðsluhringurinn með Dóru Kristínu.
 
Farið er inn í leidda hugleiðslu og bænin tekin þar inn í.
Á eftir fær hver og einn tækifæri til að ræða sínar upplifanir.
 
Hvert skipti kostar 1500 kr og er innifalin örspá.
 

Frjáls mæting og allir velkomnir.

 

Mánudagar kl. 20:00 – 21:30, (eða þ.u.b. fer eftir fjölda þáttakenda hverju sinni).
 
Tímabil: frá byrjun september og til 25 maí.
 
Staður: Herbergi inn af salnum.

Þróunarhópur Friðbjargar og Unnar Teits,

Áhersla lögð á grunnvinnu sem felur í sèr, sjálfsvinnu, jarðtengingu, eflingu verndar, setja mörk og hlusta á innsæið.

Fimmtudagar 19:30 – 21:30
12. september – 28. nóvember, 2019
36.000kr

ÞESSI HÓPUR FYLLTIST Á KYNNINGARFUNDINUM!

Fleiri viðburðir eru í vinnslu, hafið augun opin fyrir fleiri hópum og námskeiðum á næstunni.

Hugleiðslur

Með hugleiðslu náum við að kyrra hugann þannig að alheimsorkan eða Guðsorkan, hvort sem við kjósum að nefna hana, á greiðari aðgang að okkur. Hugleiðslur hjálpa okkur við að tengjast okkar æðra sjálfi, að finna þennan neista guðlegrar orku sem í okkur býr. Þennan „ég er“ kjarna. Við lærum að þekkja okkar eigin orku og einnig kynnumst við leiðbeinendum okkar og verndarenglum sem svo gjarnan vilja aðstoða okkur á allan mögulegan hátt, ef við leyfum þeim það. Við leitumst við að finna jafnvægið á milli þess að dvelja í líkama en vera jafnframt andlegar verur, finna tengsl okkar bæði við jörð og alheim. Þar kemur góð jarðtenging að notum. Kennt verður um orkustöðvar líkamans og hugleiðslan notuð til að heila þær og hreinsa. Verndin verður kynnt. Verkefni verða sett fyrir og þau rædd næst þegar hópurinn kemur saman. Við þjálfum næmnina og innsæið. Kíkjum á spil og pendúla.

 

Læknamiðlun

Prófum hlutskyggni og þjálfum okkur í að sjá ljósið í kringum hvert annað. Lærum að tengja okkur upp í sálarkjarnann okkar. Við búum öll yfir þeim hæfileikum að geta læknað. Huglækningar hafa allt tíð fylgt manninum. Við notum þær oft ómeðvitað. En hversu öflugri eru þær ekki þegar við heilum meðvitað? Við prófum okkur áfram með kærleikann að leiðarljósi og leyfum birtunni að lýsa okkur og samferðafólki okkar.
Öll styrking kemur innan frá og öll kyrrð og allt jafnvægi einnig. Og allt er undir einstaklingnum komið hver hans sjálfsvinna er. En þegar við finnum tengslin við hinn andlega heim þá fer okkur að skiljast svo margt og þá þyrstir okkur eftir að vita svo margt fleira. Við fáum ekki öll svörin og andleg leit er ekki eitthvað sem tekur enda. En kyrrðin ein og það að finna tengslin við guðdómleg öfl eru vinnulaun okkar og fyrir þau þökkum við.